Slökkvitæki

Handslökkvitækjum er ætlað að slökkva eld á byrjunarstigi, áður en hann vex og verður óviðráðanlegur. Til þess að slökkvitæki komi að gagni þurfa þau að vera ætluð til þess að slökkva eld af þeirri gerð sem búast má við að upp komi. 

Mikilvægt er að velja tæki af réttri stærð, gæta þess að þau séu nægilega mörg og rétt staðsett. Gott er að hafa í huga að tækin þurfa reglulegt viðhald. Hér má sjá tvö myndbönd um hag­nýt­ir punkt­ar um slökkvi­tæki og leiðbeiningar um val og staðsetningu handslökkvitækja 

Mis­mun­andi flokk­ar bruna

A flokkur elds er þegar kviknar í húsgögnum og innréttingum eða öðrum föstum efnum.

B flokkur elds er þegar eldur kemur upp í olíu við eldamennskuna eða í öðrum eldfimum vökvum.

C flokkur elds er þegar eldur kemur upp í gasi.

Mis­mun­andi gerð­ir slökkvi­tækja

  • Flest dufttæki (ABC-dufttæki) duga á flesta elda og eru því mjög fjölhæf. Þau henta sérstaklega vel þar sem gaseldavélar eru en þar ættu tækin annað hvort að vera aðalslökkvitæki heimilisins eða lítið aukatæki í eldhúsi sem einungis er ætlað á gaseldinn. Þá er hægt að hafa léttvatnstækið tiltækt á allt annað, en þetta verður hver og einn að gera upp við sig.
  • Röng beiting dufttækis getur breitt út eld, til dæmis ef stút tækisins er haldið of nálægt eldi í feiti eða olíu.
  • Gætið þess að krafturinn í tækinu er stundum nægjanlega mikill til þess að skjóta potti af eldavél.
  • Tjón af völdum dufts er oft meira en tjón sem verður af eldi og reyk og tölur geta hlaupið á hundruðum þúsunda samkvæmt skýrslum tryggingafélaga.
  • Kolsýruslökkvitæki henta á B-eld og eld í eldhúsi.
  • Einnig duga þau vel á eld í rafbúnaði líkt og dufttækin en skemma ekkert þar sem kolsýran hverfur þegar hún hefur sinnt sínu hlutverki. 
  • Í höndum þeirra sem þekkja annmarka efnisins er kolsýra þokkalegt slökkviefni. Hún hefur stutta kastlengd, er köld, ryður burt súrefni en slekkur ekki glóð og hentar þess vegna ekki á A-elda (timbur, föt o.fl.) nema til þess að slá á logana. Vatn verður þess vegna að koma á eftir til þess að slökkva glóðina.
  • Léttvatnstæki eru nýjasta viðbótin í slökkvitækjaflóruna. Ekki alveg jafnokar dufttækjanna hvað fjölhæfni varðar og slökkvigetu, en hafa þann stóra kost umfram duftið að þau sóða ekkert út.
  • Röng notkun, ef svo má að orði komast, veldur ekki aukinni útbreiðslu elds. Léttvatn hentar á A- og B-eld og að auki á eld í rafbúnaði ef rétt er að verki staðið.

Hag­nýt­ir punkt­ar um slökkvi­tæki

Eiganda / umráðamanni ber að skoða handslökkvitæki mánaðarlega auk þess sem viðurkenndur eftirlitsaðili skal yfirfara og prófa tækin árlega.

Við mánaðarlegt eftirlit skal athuga eftirfarandi atriði:

  • Eru slökkvitækin á sínum stöðum? (við útganga).
  • Eru innsigli órofin?
  • Sýna þrýstimælar réttan þrýsting (grænt svæði).
  • Er aðgangur að tækjunum óheftur.
  • Eru merkiskilti á sínum stað, ósködduð og sýnileg.
  • Við notkun slökkvitækja skal gæta þess að halda því uppréttu og beina slökkviefninu með jafnri hliðarhreyfingu að rótum eldsins.
  • Það fer eftir stærð og gerð tækisins hve fljótt það tæmist, en gott er að hafa í huga að þau tæmist á sekúndum ekki mínútum.
  • Heppilegast er að staðsetja tæki þar sem fólk á leið um, t.d. nærri útgöngum, á göngum eða stigapöllum. 
  • Í fjölbýlishúsum skal ganga úr skugga um að slökkvitæki séu við alla útganga.
  • Slökkvitæki sem notað hefur verið þarf að endurhlaða og yfirfara hjá fagaðila eins fljótt og kostur er, annars er það gagnslaust.
  • Ráðlagt er að láta yfirfara slökkvitæki árlega til þess að tryggja að tækið virki rétt þegar á þarf að halda.
Shopping Basket